Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.11.2008 | 00:55
Hver sér um eignir Icesave?
Núna þegar hreppstjórar viðsvegar að á Bretlandi eru að senda erindreka sína hingað til að rukka okkur aumingjana hérna um útsvarið sem var lagt inn á Icesave-reikninga, þá er ekki laust við það að maður spyrji sig að því hvort eignir Icesave séu í höndum gamla Landsbankans? Var þetta ekki allt tekið með valdi af gjaldkerum hennar hátignar þegar við urðum hryðjuverkamenn? Ef svo er, þá vaknar sú spurning hvort að málið sé ekki úr okkar höndum? Eignir Icesave hljóta að vera á ábyrgð Breta og ef þeir ætla að halda einhverja brunaútsölu á þeim eignum og rukka okkur um mismunin, þá er fokið í flest.
Hvernig standa málin í Hollandi? Eru eignirnar þar á okkar (skilanefndarinnar) höndum eða hvað?? Ef einhver veit... plís settu inn athugasemd.
23.10.2008 | 22:50
Hin helfrosna brunarúst
Bara sú staðreynd að maður setjist niður fyrir framan tölvuna og pári niður nokkrar línur um hluti sem ég á ekki að hafa hundsvit á segir ansi margt. Ég telst til latari bloggara... hef ekki séð tilgangin í því að láta ljós mitt skína á þessum vetvangi. Það er svo sem engin tilgangur núna heldur, en ef einhverntíman hefur verið lag að tjá sig, þá er það fjandakornið núna.
Við íslendingar erum líklega að upplifa einhvern mesta óraunveruleika sem hefur dunið á okkur sem sjálfstæðri þjóð, jafnvel þótt skoðað væri lengra aftur í tímann. Öll kurl eru ekki komin til grafar ennþá og eins og ástandið birtist mér í minni vinnu (þjónustu við byggingariðnaðinn), þá er ekkert framundan nema dauði og djöfull í hverju horni. Vissulega hefur sá geiri þanist út eins og blaðra núna seinni ár og það hlaut að koma að því að þolmörkum yrði náð, en að það skyldi steindeyja svona eins og raun ber vitni, það óraði engum fyrir. Íslenskir iðnaðarmenn sjá heilt yfir ekkert, og þá meina ég EKKERT, framundan. Það er allt botnfrosið, fjöldauppsagnir framundan og spár um 5% atvinnuleysi er ekkert nema bjartsýni, því við stefnum í tveggja stafa tölur í þeim efnum og það löngu fyrir jól. Byggingariðnaðurinn er stopp eftir fáeinar vikur, sumir eru búnir með þau verkefni sem þeir höfðu, því það sem var í deiglunni er komið á ís. Hliðaráhrifin af þessu eru ósköp einföld; ALGERT HRUN! Verslun og þjónusta sem sinnir þessum geira fer í þrot, eða fer á hliðina eins og það heitir víst orðið í dag.... áður var þetta kallað að fara á hausinn! Það þýðir einfaldlega að þúsundir, jafnvel tugþúsundir fjölskyldna missa megnið af sínum tekjum, lenda í vanskilum, missa allt sitt. Þetta er ekki bölsýni, heldur raunsætt mat á því sem er framundan ef ekkert verður að gert. Þarna er ég bara búinn að tala um byggingariðnaðinn og tengda þjónustu. Þá eru öll hin svið þjóðfélagsins eftir. Bílaumboð munu fara á hausinn þar sem enginn kaupir nýja bíla í þessu árferði. Húsgagnaverslanir, raftækjaverslanir og aðrar skyldar greinar, sem gera út á kaupmátt, munu eiga erfiða daga framundan. Við þetta bætist að innlend framleiðsla er háð innfluttum aðföngum þannig að bráðum verður ekki einu sinni hægt að kaupa íslenskt! Ég ætla ekki einu sinna að hugsa þá hugsun til enda hvað mun gerast þegar við þurfum að skera niður ALLA félagslega þjónustu vegna þess að við höfum ekki efni á að reka hana. Öll einkaneysla mun dragast saman því að nú sitja allir uppi með þvílíka skuldasúpu og skertar tekjur að það eitt að gefa börnum sínum eina heita máltíð á dag mun teljast gott á mörgum heimilum... það er að segja ef fólk mun eiga heimili eftir að það hefur misst vinnuna og trúna á að hafa þetta af yfir höfuð.
Þetta hljómar allt eins og hin argasta dómsdagsspá, en þessi raunveruleiki blasir við okkur ef ekki fer að gerast eitthvað í málum hér á landi. Það að hefja einhverjar aðgerðir til að sporna við þessu þolir enga bið, og það að IMF vilji sjá einhverja endurskoðaða þjóðhagsspá áður en hann muni leggja hugsanlega umsókn Íslands fyrir stjórn sjóðsins er álíka gáfulegt og að hringja í 118 til að spyrja hvað númerið er hjá 112.
p.s. Gordon Brown og hans lýðskrumarahyski, skal ekki fá svo mikið sem einn túkall með gati frá mér! Þvílík og önnur eins vinaþjóð! Hver þarf á óvinum að halda?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 00:06
Lengi lifir í gömlum glæðum
Ég trúði vart mínum eigin augum þegar ég las þessa frétt (eftir að hafa lesið blogg um hana út um allt). Er karlinn endalega genginn í barndóm? kominn aftur í gamla Sovjet-fílinginn? Það er nokkuð ljóst að það lifir lengi í gömlum (rauðum) glæðum.
Hann meinar eflaust vel og vill eflaust ættleiða öll heimsins börn og allar þúfur og kletta sem þar finnast, en þarna er forsjárhyggjan komin á hættulegt stig... Toppar Leyni-Löggu drauma Björns Bjarna margfalt!
Það er ekki nóg að hljóta Rússneska kosningu á halelúja-samkomu og klapp að launum fyrir hver tíu töluð orð... kanski hin 80% af íslensku samfélagi kæri sig ekkert um Stóra bróðurs tilburðina sem á að fara að bjóða manni upp á.
Skammastu þín Steingrímur!