25.1.2009 | 23:49
Ekki að ég þykist hafa mikið vit á þessu...
...en maður fær samt á tilfinninguna að upplausnin sé í hámarki í þjóðfélaginu þessa dagana.
Björvin G. tók hatt sinn og staf rétt eftir að hann var búinn að sópa út úr Suðurlandbraut 32. Ok, nú túlkar hver og einn þennan gjörning á sinn hátt. Hann segir sig og FME vera að axla sína ábyrgð á ástandinu, pólitískir andstæðingar hans (þeir sem væntalega skríða til Samfylkingarinnar á biðilsbuxunum eftir kosningar) kalla þetta pólitískan skrípaleik! Var þetta ekki það sem Björgvin gat uppfyllt af kröfum "Potta- og Pönnutrommara"? Mér kæmi ekki á óvart að hans nánustu hafi grátbeðið hann um að koma sér burt úr þessum skrípaleik.
Svo er það Davíð og Seðlabankinn... það er annar kapítuli út af fyrir sig og verðugt rannsóknarverkefni fyrir hinar ýmsu fræðigreinar. Á meðan Davíð var í pólitík, þá taldi ég þar vera á ferð einhvern mesta og merkasta sjórnmálamann sem við Íslendingar höfum alið. En ég verð að viðurkenna að hann féll um margar deildir í huga mínum þegar hann ákvað að fara á elliheimili afdankaðra pólitíkusa; Seðlabankann! Af hverju? Ég hefði frekar viljað sjá hann fara heim í Skerjafjörðin þar sem hann hefði sent frá sér hverja bókina á fætur annarri... ég hefði keypt þær allar! Nei... hann varð að komast í stól við Kalkofnsveg. Þar hefur hann gert hvað? Haldið stýrivöxtum og þar með gengi krónunar óeðlilega háu um árabil, og samkvæmt minni heimilshagfræði þá gerði það að verkum að erlendir penigar flæddu inn á markaðinn.. og við íslendingar erum svo ginnkeypt fyrir lánum. Best væri fyrir karlinn að pilla sér út í Seðlabankanum sjálfviljugur, en ég held að hann ætli fyrr að láta reka sig. Hvaða digurbarkalegur yfirlýsingar voru þetta hjá honum um að hann vissi sko alveg hver gerði hvað og hvers vegna og svo framvegis. Maður segir ekki A án þess að segja B. Ef hann er með eitthvað hreðjatak á einhverjum úti í bæ, sérstaklega ef það er stjórnmálaflokkur, þá á hann bara að láta það gossa og viðkomandi taka þá afleiðingum gjörða sinna (eða þess sem ekki var gert)... ef það er þá eitthvað...
Nei, það er nógu helvíti mikið að í þessu þjóðfélagi þó svo að þeir sem eiga að leysa þau mál séu nú ekki að auka á þau með sjónarspili, uppákomum og barnaskóladramatík. Ég, eins og allir aðrir vil vita hvað er verið að gera, hvað á að gera og hvernig sé hægt að snúa þróuninni við... bara smá upplýsingar, það er það sem ég vil.
Flokkstryggð mín er í hættu, því nú mun sá stjórnmálaflokkur sem býður upp á lausnir og aðgerðir sem munu virka til að bæta ástandið fá mitt atvæði í komandi kosningum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.