Hugrenningar venjulegs brauðstritara

Það hafa flogið misfleyg orð úr munni misgáfulegs fólks núna síðustu vikurnar um orsakir þeirrar stöðu sem við íslendingar erum í. Svona til að stikla á stóru, þá hefur maður heyrt því fleygt...

  1. ...að útrásavíkingar hafi teflt of djarft og því farið sem fór.
  2. ...að lánsfjárkreppa hafi skollið á og innstreymi fjármagns hafi hætt (“lánalínur lokast).
  3. ...að íbúðalánasjóður hafi sprengt fasteignamarkaðinn með 90% lánum.
  4. ...að íslensk heimili hafi keypt of mikið af flatskjáum, fartölvum, “innlit-útlit”íbúðum og öðrum neysluvarningi sem fjármagnað var með erlendum lánum.
  5. ...að bankamenn á þrítugs og fertugsaldri hafi keypt of mikið af enskum og þýskum jeppum. “Ný-ríkir” íbúðabyggjendur og seljendur með erlent vinnuafl létu sér “nægja” ameríska pallbíla.
  6. ...að ráðamenn og eftirlitsstofnanir hafi ekki skapað nógu aðsniðinn ramma utanum nýfrjálshyggjuna og hafi svo síðan sofið á verðinum.
  7. ...að vondir ráðamenn erlendis séu að kúga út úr okkur allt fé sem við gætum komist yfir næstu áratugi.
 

Það eru eflaust mikið fleiri fleygar setningar sem hafa verið sagðar síðastliðnar vikur. En nú langar mig að koma að hugrenningum mínum (óvísindalegum, ófaglegum og bara byggðar á hreinni tilfinningu), hugrenningum venjulegs brauðstritara.

 

1...að útrásavíkingar hafi teflt of djarft og því farið sem fór.

Fyrsta teiknið sem ég sá að eitthvað verulegt var í aðsigi var þegar gamli skólabróðir minn, hann Bjarni Ármannsson seldi allt sitt hérna heima (um svipað leiti og REI málið skeit á sig) og flúði með allt sitt til skatta-helvítisins Noregs! Það hefði átt að hringja fleiri bjöllum en raun bar vitni. Ég hafði bara í flimtingum að nú væri skellurinn nærri. Hefði átt að taka mark á tilfinningunni.

2 ...að lánsfjárkreppa hafi skollið á og innstreymi fjármagns hafi hætt (“lánalínur lokast).

Fasteignakreppa í bandaríkjunum... lánsfjárkreppa... allt ný hugtök fyrir manni. Íslenskir bankar hafa venjulega sent þau skilaboð til fólks að þegar þú hefur ekki lánstraust, þá ertu gjaldþrota. Þá býður maður ekki “John Smith” og “Aard van der Vook” upp á safaríka hávaxta innlánsreikninga, baktryggða af íslenskum skattborgurum. Ef ég myndi falsa undirskrift ábyrgðamanns á skuldabréf, þá færi ég í steininn og það ekki einu sinni á Kvíabryggju.

3 ...að íbúðalánasjóður hafi sprengt fasteignamarkaðinn með 90% lánum.

Þvíumlíkt kjaftæði! Hvernig geta 90%  lán til þeirra sem eru að kaupa sér eign upp á 15,6 miljónir (hámarkslán var 14 miljónir) sprengt upp fasteignamarkaðinn. Það voru bankarnir sem riðu á vaðið með “ódýr” húsnæðislán með nánast engum efri mörkum. Það sprengdi upp fasteignamarkaðinn og gott betur en það. Hver einasti maður sem átti hamar, eða gat fengið hann fjármagnaðan, rauk til og réði nokkra austur-evrópu búa á skítalaunum og fór að byggja hús og selja. Sveitafélög fóru að bjóða upp lóðir og átti sinn þátt í því að sprengja þennan markað upp úr öllu valdi, sbr þegar lóðir seldust á þriðja tug miljóna og þá var ekki einu sinni búið að skíta út stunguskóflu þegar fólk var komið með þennan byggingakostnað. Þetta sprengi fasteignamarkaðinn. Ekki íbúðalánasjóður sem var að hjálpa ungu fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég þakka bara fyrir það að bönkunum tókst ekki það ætlunarverk sitt að sölsa honum undir sig líka. Þá væri illa fyrir okkur komið í dag.

4 ...að íslensk heimili hafi keypt of mikið af flatskjáum, fartölvum, “innlit-útlit”íbúðum og öðrum neysluvarningi sem fjármagnað var með erlendum lánum.

Jú, jú. Við fórum á endurnýjunarfyllerí. Hvað mig sjálfan varðar þá hef ég á síðastliðnum fimm árum endurnýjað eftirfarandi af lausafé mínu: Sjónvarpið. Það gamla var ekki lengur nema tveggja lita: gult og fjólublátt. Keypti 42” LG flatskjá sem dugar vonandi næstu 10 til 15 árin. Tölvan. Sú sem ég sit við hérna og skrifa niður þessi orð á. Er að verða tveggja ára og læt hana duga eins lengi og ég kemst upp með það. Húsið. Keypti sökkla að parhúsi og byggði hús yfir fjölskylduna... sjálfur! Datt ekki alveg í innlit-útlit pakkann, en vandaði vel til verka og sparaði þar sem við átti en ekki þar sem það hefði bara komið í bakið á manni. Það þarf að fylgja reglugerðum og lágmarksstöðlum.

5 ...að bankamenn á þrítugs og fertugsaldri hafi keypt of mikið af enskum og þýskum jeppum. “Ný-ríkir” íbúðabyggjendur og seljendur með erlent vinnuafl létu sér “nægja” ameríska pallbíla.

Flotinn af Range-Roverum, BMW X5 og Porsche Cayenne á vegum landsins segir allt sem segja þarf. Svo er ekki þverfótandi á bílastæðum verslunarmiðstöðva fyrir amerískum pallbílum sem taka tvö til þrjú stæði... Þetta eru VÖRUBÍLAR!! Andskotinn hafi’ða! Núna er ég ánægður með að bílafloti minn er ekki meiri fjárfesting en vikulaun bankastjóra.

6 ...að ráðamenn og eftirlitsstofnanir hafi ekki skapað nógu aðsniðinn ramma utanum nýfrjálshyggjuna og hafi svo síðan sofið á verðinum.

Þetta liggur í augum uppi. Þarna hafa stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og aðrir gjörsamlega drullað upp á bak. Gallinn kannski lá í meingölluðu regluverki sem við urðum að taka upp óbreytt vegna EES? Sjálfur Frakklandsforseti hefur sagt að skrifa þurfi leikreglurnar upp á nýtt. Það hlýtur að liggja í augum uppi. Lausnin felst samt ekki í frönsku lausninni (hálshöggva alla) heldur verðum við öll að leggjast á eitt og róa í takt... bara ef við vissum í hvaða takt og í hvaða átt...

7 ...að “vondir ráðamenn” erlendis séu að kúga út úr okkur allt fé sem við gætum komist yfir næstu áratugi.

  

Ég skal fyrr hundur heita en að viðurkenna það að ég, börnin mín og ófædd barnabörn hafi skrifað upp á ábyrgð fyrir einhvern banka í Reykjavík sem fékk lánaðan pening hjá fólki í útlöndum. Þeir hafa einfaldlega ekki leyfi frá mér til þess að skuldsetja mig, börnin mín og ófædd barnabörn á þennan hátt.

En við erum í þeirri stöðu sem við erum, þótt við vitum ekki hver hún er í raun og veru. Við verðum að fara að fá að vita eitthvað. Það er betra að okkur sé sagt að allt sé gjörsamlega farið til helvítis og að við eigum bara svarta daga framundan en að okkur sé sagt akkúrat ekki neitt. Mig, eins og flesta aðra íslendinga, er farið að þyrsta eftir einhverjum upplýsingum um hvernig málin standa. Hvað á að gera og hvað maður getur sjálfur gert til að verja sig og sína fyrir því sem koma skal. Ég held að óvissan sé versti óvinur okkar eins og stendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband