12.11.2008 | 14:02
Leggjum inn í IGAVE bankann!
Það er innlánskrísa í öllum bönkum í Bretlandi. Væri hægt að endurgreiða Icesave bullið með framlögum frá Íslandi í IGAVE bankann.
Þá má segja að við íslendingar færum að ru**a okkur fyrir skuldunum.
Sæðisgjafa skortir í Bretlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 08:29
Var þetta dótturfélag eða útibú?
Veit einhver hvort Kaupþing hafi verið með þetta í dótturfélagi eða rekið þetta sem sjálfstætt útibú? Ef þetta hefur verið útibú, var það þá útibú héðan eða frá öðrum banka þeirra erlendis.
Það er nefnilega reiginmunur þar á !!
Ekki laust við að þessi frétt hafi betur verið ósögð þar til það hafi legið ljóst fyrir.
Vaxandi reiði í garð Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.11.2008 | 23:02
Hvað vakir fyrir þeim?
Þegar maður talar við gamla sjómenn, þá bera þeir yfirleitt tjallanum ekki góða söguna vegna ránveiða þeirra í útvíkkaðri landhelgi okkar hér á árum áður. En þeir segja heldur ekki farir sínar sléttar af viðskiptum sínum við normenn... sumir hreinlega sjá rautt þegar þá ber á góma.
Er tjallinn og norsarinn kannski farinn að plotta um hvernig þeir fyrrnefndu geta fengið hlut í framtíða olíutekjum íslendinga af Drekasvæðinu með aðstoð normanna?
Er maður farinn að vera paranoid eða hvað!!
Stoltenberg ræddi um Ísland við Brown | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.11.2008 | 22:15
Hugrenningar venjulegs brauðstritara
Það hafa flogið misfleyg orð úr munni misgáfulegs fólks núna síðustu vikurnar um orsakir þeirrar stöðu sem við íslendingar erum í. Svona til að stikla á stóru, þá hefur maður heyrt því fleygt...
- ...að útrásavíkingar hafi teflt of djarft og því farið sem fór.
- ...að lánsfjárkreppa hafi skollið á og innstreymi fjármagns hafi hætt (lánalínur lokast).
- ...að íbúðalánasjóður hafi sprengt fasteignamarkaðinn með 90% lánum.
- ...að íslensk heimili hafi keypt of mikið af flatskjáum, fartölvum, innlit-útlitíbúðum og öðrum neysluvarningi sem fjármagnað var með erlendum lánum.
- ...að bankamenn á þrítugs og fertugsaldri hafi keypt of mikið af enskum og þýskum jeppum. Ný-ríkir íbúðabyggjendur og seljendur með erlent vinnuafl létu sér nægja ameríska pallbíla.
- ...að ráðamenn og eftirlitsstofnanir hafi ekki skapað nógu aðsniðinn ramma utanum nýfrjálshyggjuna og hafi svo síðan sofið á verðinum.
- ...að vondir ráðamenn erlendis séu að kúga út úr okkur allt fé sem við gætum komist yfir næstu áratugi.
Það eru eflaust mikið fleiri fleygar setningar sem hafa verið sagðar síðastliðnar vikur. En nú langar mig að koma að hugrenningum mínum (óvísindalegum, ófaglegum og bara byggðar á hreinni tilfinningu), hugrenningum venjulegs brauðstritara.
1...að útrásavíkingar hafi teflt of djarft og því farið sem fór.
Fyrsta teiknið sem ég sá að eitthvað verulegt var í aðsigi var þegar gamli skólabróðir minn, hann Bjarni Ármannsson seldi allt sitt hérna heima (um svipað leiti og REI málið skeit á sig) og flúði með allt sitt til skatta-helvítisins Noregs! Það hefði átt að hringja fleiri bjöllum en raun bar vitni. Ég hafði bara í flimtingum að nú væri skellurinn nærri. Hefði átt að taka mark á tilfinningunni.
2 ...að lánsfjárkreppa hafi skollið á og innstreymi fjármagns hafi hætt (lánalínur lokast).
Fasteignakreppa í bandaríkjunum... lánsfjárkreppa... allt ný hugtök fyrir manni. Íslenskir bankar hafa venjulega sent þau skilaboð til fólks að þegar þú hefur ekki lánstraust, þá ertu gjaldþrota. Þá býður maður ekki John Smith og Aard van der Vook upp á safaríka hávaxta innlánsreikninga, baktryggða af íslenskum skattborgurum. Ef ég myndi falsa undirskrift ábyrgðamanns á skuldabréf, þá færi ég í steininn og það ekki einu sinni á Kvíabryggju.
3 ...að íbúðalánasjóður hafi sprengt fasteignamarkaðinn með 90% lánum.
Þvíumlíkt kjaftæði! Hvernig geta 90% lán til þeirra sem eru að kaupa sér eign upp á 15,6 miljónir (hámarkslán var 14 miljónir) sprengt upp fasteignamarkaðinn. Það voru bankarnir sem riðu á vaðið með ódýr húsnæðislán með nánast engum efri mörkum. Það sprengdi upp fasteignamarkaðinn og gott betur en það. Hver einasti maður sem átti hamar, eða gat fengið hann fjármagnaðan, rauk til og réði nokkra austur-evrópu búa á skítalaunum og fór að byggja hús og selja. Sveitafélög fóru að bjóða upp lóðir og átti sinn þátt í því að sprengja þennan markað upp úr öllu valdi, sbr þegar lóðir seldust á þriðja tug miljóna og þá var ekki einu sinni búið að skíta út stunguskóflu þegar fólk var komið með þennan byggingakostnað. Þetta sprengi fasteignamarkaðinn. Ekki íbúðalánasjóður sem var að hjálpa ungu fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég þakka bara fyrir það að bönkunum tókst ekki það ætlunarverk sitt að sölsa honum undir sig líka. Þá væri illa fyrir okkur komið í dag.
4 ...að íslensk heimili hafi keypt of mikið af flatskjáum, fartölvum, innlit-útlitíbúðum og öðrum neysluvarningi sem fjármagnað var með erlendum lánum.
Jú, jú. Við fórum á endurnýjunarfyllerí. Hvað mig sjálfan varðar þá hef ég á síðastliðnum fimm árum endurnýjað eftirfarandi af lausafé mínu: Sjónvarpið. Það gamla var ekki lengur nema tveggja lita: gult og fjólublátt. Keypti 42 LG flatskjá sem dugar vonandi næstu 10 til 15 árin. Tölvan. Sú sem ég sit við hérna og skrifa niður þessi orð á. Er að verða tveggja ára og læt hana duga eins lengi og ég kemst upp með það. Húsið. Keypti sökkla að parhúsi og byggði hús yfir fjölskylduna... sjálfur! Datt ekki alveg í innlit-útlit pakkann, en vandaði vel til verka og sparaði þar sem við átti en ekki þar sem það hefði bara komið í bakið á manni. Það þarf að fylgja reglugerðum og lágmarksstöðlum.
5 ...að bankamenn á þrítugs og fertugsaldri hafi keypt of mikið af enskum og þýskum jeppum. Ný-ríkir íbúðabyggjendur og seljendur með erlent vinnuafl létu sér nægja ameríska pallbíla.
Flotinn af Range-Roverum, BMW X5 og Porsche Cayenne á vegum landsins segir allt sem segja þarf. Svo er ekki þverfótandi á bílastæðum verslunarmiðstöðva fyrir amerískum pallbílum sem taka tvö til þrjú stæði... Þetta eru VÖRUBÍLAR!! Andskotinn hafiða! Núna er ég ánægður með að bílafloti minn er ekki meiri fjárfesting en vikulaun bankastjóra.
6 ...að ráðamenn og eftirlitsstofnanir hafi ekki skapað nógu aðsniðinn ramma utanum nýfrjálshyggjuna og hafi svo síðan sofið á verðinum.
Þetta liggur í augum uppi. Þarna hafa stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og aðrir gjörsamlega drullað upp á bak. Gallinn kannski lá í meingölluðu regluverki sem við urðum að taka upp óbreytt vegna EES? Sjálfur Frakklandsforseti hefur sagt að skrifa þurfi leikreglurnar upp á nýtt. Það hlýtur að liggja í augum uppi. Lausnin felst samt ekki í frönsku lausninni (hálshöggva alla) heldur verðum við öll að leggjast á eitt og róa í takt... bara ef við vissum í hvaða takt og í hvaða átt...
7 ...að vondir ráðamenn erlendis séu að kúga út úr okkur allt fé sem við gætum komist yfir næstu áratugi.
Ég skal fyrr hundur heita en að viðurkenna það að ég, börnin mín og ófædd barnabörn hafi skrifað upp á ábyrgð fyrir einhvern banka í Reykjavík sem fékk lánaðan pening hjá fólki í útlöndum. Þeir hafa einfaldlega ekki leyfi frá mér til þess að skuldsetja mig, börnin mín og ófædd barnabörn á þennan hátt.
En við erum í þeirri stöðu sem við erum, þótt við vitum ekki hver hún er í raun og veru. Við verðum að fara að fá að vita eitthvað. Það er betra að okkur sé sagt að allt sé gjörsamlega farið til helvítis og að við eigum bara svarta daga framundan en að okkur sé sagt akkúrat ekki neitt. Mig, eins og flesta aðra íslendinga, er farið að þyrsta eftir einhverjum upplýsingum um hvernig málin standa. Hvað á að gera og hvað maður getur sjálfur gert til að verja sig og sína fyrir því sem koma skal. Ég held að óvissan sé versti óvinur okkar eins og stendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 00:55
Hver sér um eignir Icesave?
Núna þegar hreppstjórar viðsvegar að á Bretlandi eru að senda erindreka sína hingað til að rukka okkur aumingjana hérna um útsvarið sem var lagt inn á Icesave-reikninga, þá er ekki laust við það að maður spyrji sig að því hvort eignir Icesave séu í höndum gamla Landsbankans? Var þetta ekki allt tekið með valdi af gjaldkerum hennar hátignar þegar við urðum hryðjuverkamenn? Ef svo er, þá vaknar sú spurning hvort að málið sé ekki úr okkar höndum? Eignir Icesave hljóta að vera á ábyrgð Breta og ef þeir ætla að halda einhverja brunaútsölu á þeim eignum og rukka okkur um mismunin, þá er fokið í flest.
Hvernig standa málin í Hollandi? Eru eignirnar þar á okkar (skilanefndarinnar) höndum eða hvað?? Ef einhver veit... plís settu inn athugasemd.
8.11.2008 | 14:35
Hergagnaútflutningur?
Það fór þó aldrei þannig að við íslendingar gætum ekki staðið undir hryðjuverkamannorðsporinu. Það þarf væntanlega að endurnýja bílaflotann í Írak eftir allar "bílasprengjurnar" þar í landi.
Við þurfum þessar druslur sjálf, þar sem það mun varla seljast nýr bíll hér á landi næstu árin...
Druslurnar sendar úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2008 | 00:30
Ég er bjartsýnn..... í alvöru!
Þrátt fyrir að ég nái að sjá dauða og djöful úti í hverju horni, þá langar mig að taka það fram að ég hef fulla trú á okkur íslendingum sem þjóð og ég er sannfærður um að við verðum fljót að ná okkur út úr þessu ástandi.... líklega á undan mörgum öðrum þjóðum.
Hversvegna??
- Við framleiðum matvæli. Það er eitthvað sem fólk mun ekki hætta að nota og við þurfum að hlúa að því. "SLORIÐ ER KÚL!"
- Við framleiðum Ál. Með aukinni meðvitund fólks um umhverfisvernd og orkusparnað, þá munu þeir bílaframleiðendur sem hafa rænu til leitast við að framleiða léttari og sparneytnari bíla. Þar er Álið málið.
- ORKA! Við eigum að nýta okkur þá orku sem landið býður. Hversu flott væri það ef við næðum að t.d. vetnisvæða fiskiskipaflotann? Væri það ekki frábært í markaðsvinnu á fiskafurðum að geta selt fiskinn sem vistvænann kost, tala nú ekki um smábátafiskinn. Þetta er hægt. Auka rannsóknir og þróun á Vetni sem raunhæfum orkugjafa.
- Mannauðurinn. Við erum hugmyndaríkt og gáfað fólk. Auk þess er menntunarstigið okkar hátt (má reindar bæta hana verulega þegar kemur að hagfræði).
- og að lokum: Þetta reddast!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2008 | 23:50
Er Ísland bara BETA-útgáfan af stóru kreppunni?
Þegar maður ef búinn að ná hausnum upp úr bölsýnisdallinum og skoðar þá atburði sem hafa átt sér stað, eru að eiga sér stað og rýnir í átt að þeim sem munu eiga sér stað, þá er ekki laust við að maður fái þá tilfinningu að Ísland vara bara fyrsta landið til að skella á veggnum fjárhagslega.
Það er komið upp almennt, hnattrænt vantraust á bankakerfið, bæði innbirgðis hjá bönkum og sjóðum sem og almenningi. Það veit enginn neitt! Ég get röflað jafn gáfulega ofan í húfuna mína og vel borgaðir greinendur hjá bönkum og sjóðum, því það sem er að gerast og viðbrögð við því virðast ekki fylgja neinum lögmálum, nema því að hver er sjálfum sér næstur.
Þrátt fyrir að þúsundum miljarða hafi verið spýtt inn í bankakerfi heimsins, þá er það ekkert nema aum blóðgjöf í fossblæðandi mann. Engin hefur trú á því að uppgangur sé framundan, og því mun niðursveiflan (niðurgangurinn?) fóðra sig sjálfa.
Vogunarsjóðir í Bandaríkjunum eru við það að fara til helv**, ásamt krúnudjásni Kananna; General Motors. Hinum megin við Atlantshafið treður almenningur sparifé sínu undir kodda og í peningaskápa bakvið eftirlíkingar gömlu meistarana.
Ef einangrunarstefnan nær góðum tökum á heimsbyggðinni, þá á það eftir að koma verulega illa við kauninn á Kína, sem byggir nánast allann sinn uppgang á neysluhyggju vesturlandabúa. Þeir framleiða megnið af þeim veraldarhyggjuvarningi sem við höfum sannfært okkur um að við verðum að eiga og helst endurnýja reglulega, eins og Flatskjái, fartölvur (eða íhlutina í það minnsta) og annann neysluvarning sem við, sem og aðrir aðkrepptir vesturlandabúar munum spara við okkur á næstunni.
Þegar (ekki ef) Kína lendir í niðursveiflunni, þá mun þeirra eigin þörf fyrir málma, olíu, áburð, dýrafóður og fleira minnka, sem mun dýpka niðursveifluna enn frekar.
Þetta held ég því miður að sé í uppsiglingu, og við skulum búa okkur undir að aðrar þjóðir muni upplifa okkar bankakreppu, niðursveiflu og almenna volæði á næstunni... bara svo MIKLU STÆRRA!
Ísland er bara BETA-útgáfan af stóru kreppunni!
Mjög erfiðir tímar framundan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2008 | 00:35
Eitt eldgos eða svo... til að fullkomna "anno horriblis"
Þá er veturinn skollinn á okkur af sinni alkunnu snilld. Ekki nóg með að atvinnulífið sé fennt í kaf og við það að kafna til ólífis, þá þarf vetur konungur að sparka í okkur liggjandi.
Væri ekki gott að bæta einu hressilegu eldgosi við svona til að þurrausa Viðlagasjóð líka...
Þakplötur fuku á Reykjanesi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2008 | 22:50
Hin helfrosna brunarúst
Bara sú staðreynd að maður setjist niður fyrir framan tölvuna og pári niður nokkrar línur um hluti sem ég á ekki að hafa hundsvit á segir ansi margt. Ég telst til latari bloggara... hef ekki séð tilgangin í því að láta ljós mitt skína á þessum vetvangi. Það er svo sem engin tilgangur núna heldur, en ef einhverntíman hefur verið lag að tjá sig, þá er það fjandakornið núna.
Við íslendingar erum líklega að upplifa einhvern mesta óraunveruleika sem hefur dunið á okkur sem sjálfstæðri þjóð, jafnvel þótt skoðað væri lengra aftur í tímann. Öll kurl eru ekki komin til grafar ennþá og eins og ástandið birtist mér í minni vinnu (þjónustu við byggingariðnaðinn), þá er ekkert framundan nema dauði og djöfull í hverju horni. Vissulega hefur sá geiri þanist út eins og blaðra núna seinni ár og það hlaut að koma að því að þolmörkum yrði náð, en að það skyldi steindeyja svona eins og raun ber vitni, það óraði engum fyrir. Íslenskir iðnaðarmenn sjá heilt yfir ekkert, og þá meina ég EKKERT, framundan. Það er allt botnfrosið, fjöldauppsagnir framundan og spár um 5% atvinnuleysi er ekkert nema bjartsýni, því við stefnum í tveggja stafa tölur í þeim efnum og það löngu fyrir jól. Byggingariðnaðurinn er stopp eftir fáeinar vikur, sumir eru búnir með þau verkefni sem þeir höfðu, því það sem var í deiglunni er komið á ís. Hliðaráhrifin af þessu eru ósköp einföld; ALGERT HRUN! Verslun og þjónusta sem sinnir þessum geira fer í þrot, eða fer á hliðina eins og það heitir víst orðið í dag.... áður var þetta kallað að fara á hausinn! Það þýðir einfaldlega að þúsundir, jafnvel tugþúsundir fjölskyldna missa megnið af sínum tekjum, lenda í vanskilum, missa allt sitt. Þetta er ekki bölsýni, heldur raunsætt mat á því sem er framundan ef ekkert verður að gert. Þarna er ég bara búinn að tala um byggingariðnaðinn og tengda þjónustu. Þá eru öll hin svið þjóðfélagsins eftir. Bílaumboð munu fara á hausinn þar sem enginn kaupir nýja bíla í þessu árferði. Húsgagnaverslanir, raftækjaverslanir og aðrar skyldar greinar, sem gera út á kaupmátt, munu eiga erfiða daga framundan. Við þetta bætist að innlend framleiðsla er háð innfluttum aðföngum þannig að bráðum verður ekki einu sinni hægt að kaupa íslenskt! Ég ætla ekki einu sinna að hugsa þá hugsun til enda hvað mun gerast þegar við þurfum að skera niður ALLA félagslega þjónustu vegna þess að við höfum ekki efni á að reka hana. Öll einkaneysla mun dragast saman því að nú sitja allir uppi með þvílíka skuldasúpu og skertar tekjur að það eitt að gefa börnum sínum eina heita máltíð á dag mun teljast gott á mörgum heimilum... það er að segja ef fólk mun eiga heimili eftir að það hefur misst vinnuna og trúna á að hafa þetta af yfir höfuð.
Þetta hljómar allt eins og hin argasta dómsdagsspá, en þessi raunveruleiki blasir við okkur ef ekki fer að gerast eitthvað í málum hér á landi. Það að hefja einhverjar aðgerðir til að sporna við þessu þolir enga bið, og það að IMF vilji sjá einhverja endurskoðaða þjóðhagsspá áður en hann muni leggja hugsanlega umsókn Íslands fyrir stjórn sjóðsins er álíka gáfulegt og að hringja í 118 til að spyrja hvað númerið er hjá 112.
p.s. Gordon Brown og hans lýðskrumarahyski, skal ekki fá svo mikið sem einn túkall með gati frá mér! Þvílík og önnur eins vinaþjóð! Hver þarf á óvinum að halda?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)