Ekki fer hún vel af stað þessi elska...

Er það óskrifuð lög eða er það hreinlaga meitlað í stein einhverstaðar að maður eigi bara að vera á móti og finna öllu allt til foráttu ef maður er í stjórnarandstöðu?? Hvað var hún Eygló að væna Össur um? Er það virkilega stórkarlalegur karlrembuháttur að vilja vinna í málum sem geta séð til þess að hér muni nánast "drjúpa smjör af hverju strái" í framtíðinni?

Auðvitað verður að taka á þeim málum af festu sem berja á okkur í dag, en það má samt ekki gleyma því að það kemur dagur eftir þennan dag.

...svona að lokum... er flíspeysa orðin að viðurkenndum fatnaði á Alþingi?? Ég held að meira að segja Árni Johnssen fari úr "Herjólfsdalsdressinu" þegar hann mætir í vinnuna við Austurvöll.

... þar féll það vígi... ég farinn að setja út á klæðaburð fólks... Crying


mbl.is Í draumi sérhvers manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin er meira en húsfyllir vestur í bæ...

Ekki að ég sé neitt að gera lítið úr borgarafundinum í Háskólabíó, en þjóðin er nú heldur meira en húsfyllir vestur í bæ.

Reiðin kraumar í mér líka, ég er enginn "já-ari" fyrir sitjandi ráðamenn, því ég sit uppi með íbúðarlán sem vex eins og sveppur í heitum og rökum skógi, en eins og maður getur nú bölvað verðtryggingunni í sand og ösku þá vildi ég ekki þurfa að borga 23% vexti (5,5% vextir +17,5% verðbólga) af íbúðarlánunum. Af 20.000.000 kr láni væru það ekki nema rúmar 383.000 á mánuði... í vexti! Þá er afborgunin eftir. Það er verðbólgan sem er meinið.

Þetta er það gjald sem við erum að borga fyrir sukkið og svallið sem hefur verið hér á landi síðustu ár. Þó svo að það sé gott að kenna einhverjum auðmönnum um allt sem illa fór, þá erum við öll samsek. Við höfum sprengt upp húsnæðismarkaðinn hér á landi og það af slíku offorsi að við þurfum ekki að byggja svo mikið sem einn fermetra af íbúðarhúsnæði næstu árin. Þegar fermetraverð hefur rúmlega tvöfaldast á nokkrum árum, þá getum við auðveldlega ímyndað okkur hvar stór hluti þessara erlendu lána er niðurkomin. Við þurftum að flytja inn erlent vinnuafl sem samsvarar öllu vinnufæru fólki á suðurnesjum að fjölda til þess að koma öllum þessum kofum upp úr jörðinni.

Auðvitað er hellingur af fólki sem missti alveg af "góðærinu" og keypti sér ekki svo mikið sem einn auman I-Pod, en einhverjir voru það sem hafa keypt hinar 72.193 bifreiðar sem voru fluttar inn á árunum 2005-2007. Við erum öll meðsek á einhvern hátt.

Hættum þessu helvítis væli, en gerum samt kröfur um að stjórnvöld geri eitthvað sem í raun er til gagns fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef við tækjum upp € í dag...

Eins og umræðan var hérna í denn (síðustu viku), þá áttum við bara að taka upp Evruna einhliða. Hvað hefðum við haft upp úr því annað en að verða að annars, jafvel þriðja flokks ríki í Evrópu?

Ef við tækjum upp Evru í dag, þá væri þetta Ísland í dag (miðað við gengi Seðlabankans):

Lágmarkstekjur afgreiðslufólks fyrir fulla vinnu: 142.450 á mánuði = € 802,5

Lágmarkstekjur skrifstofufólks fyrir fulla vinnu: 161.230 á mánuði = € 908,34

Þetta líkist frekar launatölum frá A-Evrópu frekar en þeim tölum sem við eigum að venjast. Þetta er raunveruleikinn sem við búum við í dag. Eina leiðin til að lyfta þessu er að lappa upp á krónuna okkar og að við leggjumst öll á eitt með það verk. Það hefst ekki með því að eyða tíma í óþarfa orðagjálfur sem vitað er að leiði ekki til neins nema að einn dagur í björgunaraðgerðum fer til spillis. Það hefst heldur ekki með því að við séum stanslaust að grafa undan okkur sjálfum með misgáfulegum yfirlýsingum um hversu ónýt krónan er, hversu getulaus stjórnvöld eru, hversu vond löggan er og þar fram eftir götum.

Rífum okkur upp á rassgatinu! Drullumst til að gera eitthvað sem leiðir til einhvers uppbyggilegs og áþreifanlegs árangurs.

En þar verða stjórnvöld að fara á undan og gera eitthvað!

 


Af erlendum skuldum og yfirdráttum...

Merkilegt hvað lítið hefur farið fyrir umræðum um erlendar skuldir íslenskra fyrirtækja sem hafa þar að auki duglegan yfirdrátt hjá bönkunum til að fjármagna daglegan rekstur.

 

Þarna eiga í hlut flest þau fyrirtæki sem flytja inn vörur, eru með 30, 60 og jafnvel 90 daga greiðslufrest hjá erlendum birgjum. Reyndar eru þau núna í þeirri stöðu að hafa engan greiðslufrest, heldur verða þau að punga út fyrir öllum vörukaupum fyrirfram. Á sama tíma verða þau að greiða niður eldri skuldir með gjaldeyri sem varla fæst, og ef hann fæst þá á gengisvísitölu sem fer að nálgast 240 stig (ef hún hefur ekki náð því í dag). Flest hafa þessi fyrirtæki, svona til að bæta gráu ofan á svart, sveran yfirdrátt á okurvöxtum til að fjármagna hinn daglega rekstur.

 

Einhverja hluta vegna hefur þessi staðreynd alveg flogið undir radar í umræðunni. Ef ekki kemur til einhverskonar kraftaverk af guðdómlegri stærðagráðu, þá verður fjöldahrun á vettvangi innflutningsfyrirtækja, heildverslana og sem og í smásölu.

 

Ekki gleyma smáfuglunum í vetur!! Ef þeir fara að stráfalla, þá er voðinn vís.


Tvennir grautar í sömu skál...

Merkilegt hvað það er mikill munur á því hvernig fréttir eru sagðar. mbl.is segir: "Minnkandi áhugi á ESB-aðild" á meðan visir.is segir: "Meirihluti vill ESB-umsókn og evru". Eru þessir miðlar ekki báðir að segja frá sama hlutnum? Skoðanakönnun Fréttablaðsins.

Báðir segja í meginatriðum satt og rétt frá, en báðir eru inni á línunni "Hafa skal það sem betur hljómar". Eru þessir tvennir grautar ekki komnir í sömu skálina?


mbl.is Minnkandi áhugi á ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar öllu er á botnin hvolft...

...þá er þetta allt voðalega einfalt. Rétt eins og hvert annað heimili sem þarf að halda útgjöldum sínum innan ramma þeirra tekna sem er aflað, þá á það nákvæmlega sama við um hið stóra heimili sem Ísland er.

 

Maður getur verið þakklátur fyrir það sem við þó eigum; Sjávarútveginn, áliðnaðinn og aðrar framleiðslugreinar sem skila tekjum í hús... og þökk sé öllum æðri máttarvöldum að ákveðinni elítu hefur ekki tekist það ætlunarverk sitt að ganga af íslenskum landbúnaði dauðum ennþá með því að flytja inn “ódýr” matvæli að utan! Hvar værum við stödd í dag ef það væri raunin?

 

Ef maður tekur sér stöðu aðeins fyrir utan írafárið sem er í gangi í þjóðfélaginu í dag og horfir með köldum kolli á það sem hefur, er og getur gerst, þá er þetta allt voðalega einfalt og skiljanlegt.

 

Við þurfum að afla tekna fyrir þjóðarbúið. Þeim tekjum þurfum við að verja til innflutnings nauðsynja, uppbyggingu velferðar og innviða þjóðfélagsins. Þetta er bara debet og kredit. Ef við eyðum meira en við öflum, þá þurfum við að taka lán fyrir því. Hvar? Jú, erlendis og það þarf að greiða þau lán... með þeim tekjum sem við öflum.

 

Er ekki bara komin tími til að við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að taka þeim skelli sem er framundan... við verðum að losna undan því helsi sem þessi Jöklabréf eru, leyfa þeim að fara sem munu fara. Krónan mun falla! Jafnvel skítfalla! Verðbólga mun rjúka upp og ef ekkert verður að gert þá munu fyrirtæki og heimili standa í rjúkandi rúst á eftir. Sumir hagfræðingar hafa bent á leiðir til að koma í veg fyrir það með því að hugsa út fyrir hin hefðbundna ramma. Því að ef stórkostlegt greiðslufall verður, þá mun allt bókstaflega fara til helvítis. Þess vegna verða ráðamenn að hugsa út fyrir hin hefðbundnu viðmið.

 

Þegar þessi flótti fjármagns spákaupmanna verður afstaðin, þá stöndum við væntanlega á brókinni með tæmda sjóði, fossblæðandi krónu og skuldug upp fyrir haus. En þá hefst líka endurreisnin. Við munum fá okkar gjaldeyristekjur, við munum vonandi fá fyrirgreiðslu fyrir frekari uppbyggingu hér á landi (sættum okkur við það að við verðum að nýta okkar auðlindir ef við ætlum yfirhöfuð að búa hér á landi). Það eina sem getur réttlætt tímabundin viðskiptahalla við útlönd er ef á sér stað uppbygging á starfsemi sem mun afla tekna... sem borga til baka þennan halla á skömmum tíma.

 

Við verðum einfaldlega að sætta okkur við það að lífskjör okkar byggjast upp á þeim tekjum sem við öflum, en ekki þeim lánum sem við getum slegið. Gengi krónunar kemur til með að jafnast og að lokum mun hún verða þess virði sem hún er... í jafnvægi við framboð og eftirspurn. Ef þorsti okkar eftir erlendum varningi verður mikill, þá mun hún falla, ef við hugsum eins og hagsýnar húsmæður, þá mun hún styrkjast og standa undir þeim styrk.

 

Ég er orðinn þreyttur á því karpi sem á sér stað í þjóðfélaginu, þar sem hver á fætur öðrum ber af sér sök og bendir eitthvert annað. Ég er orðinn þreyttur á orðagjálfri og lýðskrumi sem sumir pólitíkusar hafa stundað að undanförnu, þvaðri sem  á sér enga stoð í raunveruleikanum. Það kom berlega í ljós í fréttum RÚV í kvöld að það verður engan afslátt hægt að fá frá fiskveiðistefnu ESB. Innganga mun taka allt að fjórum árum og Evran er ennþá fjarlægari sakir þeirrar stöðu sem fjármál Íslands eru í.

 

Það er óábyrgt að slá þessu ryki í augun á fólki. ESB er engin töfralausn, þvert á móti þá er ég sannfærður um að okkur sé mikið betur borgið að standa utan þess núna sem fyrr og líka í nánustu framtíð. Við höfum enga samningsstöðu gagnvart ESB, og þar að auki held ég að við höfum ekki þann samningaþrótt sem þarf til í viðræður við þursinn í Brüssel.

 

Verum stolt af því að vera íslendingar, og sýnum það í verki. Fjallkonan á það inni hjá okkur.


Mátulegt á þann fávitann...

Hafið þið ekki velt fyrir ykkur hvaða vesalingur hefur keypt sér hráolíu á $147,27?? Ætli hann sé ekki að fá þær tunnurnar afhentar núna... góður bissniss þetta.

Hard-Core Kapitalismi hikar ekki við að borða börnin sín þegar hungrið sverfur að.


mbl.is Enn lækkar verð á hráolíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipalestir undir vopnavernd

Það er alveg með eindæmum að sjórán skuli tíðkast og að þetta stjórnlausa ríki sem Sómalía er skuli fá að komast upp með þessa vitleysu. Það er greinilegt að þeir vinna einhver skítverk fyrir einhvern, því annars væri búið að sprengja þetta lið aftur í fornöld.

Óneitanlega kemur manni í hug siglingar Bandamanna í skipalestum til að verjast árásum þýskra kafbáta. Eru þessir sómalar á nokkru merkilegri fleytum en öppgreituðum Sóma-bátum með vélbyssu í stað DNG rúllu?


mbl.is Olíuflotinn sneiði hjá sjóræningjaslóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framfylkingin? Samsókn?

Samkvæmt frétt á visir.is þá sagði Bjarni Harðarson víst að Framsóknarflokkurinn gæti allt eins sameinast Samfylkingunni. Ég held að það þurfi ekki að gerast með neinum skipulegum hætti því framsóknarmenn í miðjuþófi hafa gerst Samfylkingarfólk og ESB andstæðingar þar á bæ hafa fært sig alveg út á vinstri kantinn undir afdráttalausa afstöðu Steingríms & Co í þeim efnum.

Skoðanakannanir benda til þess að þeim gæti reynst erfitt að fá fulla mætingu á flokksþing.

Trúir fólk því virkilega að hér muni drjúpa smjör af hverju strái ef við göngum í ESB?? Að Evra verði gjaldmiðill okkar bara eftir nokkur ár?

En þegar það kemur svona almennt að spurningunni um ESB, þá spyr maður sig óneitanlega að því hvort að sá félagsskapur sem hefur snúið svona upp á handlegginn á okkur síðustu vikurnar til að hafa af okkur "nestspeninginn" sé svo æskilegur til að vera í? Horfum aðeins lengra fram á veginn, því ESB horfir ágirndaraugum á fiskimiðin okkar og nú hefur sú staða komið upp að raunhæfur möguleiki er á því að vinnanlegt magn olíu sé innan landhelginar. Þetta langar Brüssel að læsa klónum í, og ég held að þjóðarsálin sé svo þjökuð af minnimáttarkennd að afglöp í samningum sé stórhættulegur möguleiki.

Hver ætlaði ekki að kyssa vönd kvalarans?


Eldri borgarar kunna að skemmta sér í kreppunni...

Eins og svo margir aðrir þá hefur maður oft velt því fyrir sér hvað eldri borgarar gera sér til dundurs svona á þessum síðustu og verstu.

Látið ekki uppgerðadeyfðina blekkja ykkur!

 

 

Rakst á þessa skemmtilegu sögu fyrr í dag og varð bara að fá að deila henni.

"Um daginn fórum við hjónin til dæmis niður í bæ og versluðum lítið eitt. Við vorum ekki nema um fimm mínútur inni í búðinni. Svo þegar við komum út, var lögregluþjónn að skrifa sektarmiða.

Við gengum rakleitt til hans og ég spurði hvort hann væri ekki til í að gefa eldri borgurum landsins smá séns. Hann lét sem hann sæi okkur ekki og hélt áfram að skrifa sektarmiðann, rétt eins og við værum ekki til.

Ég kallaði hann Nasistalöggu, möppudýr, fant og fúlmenni. Hann rétt leit til mín, greinilega öskureiður og skrifaði svo annan sektarmiða, því bíllinn var á of slitnum dekkjum.

Þá kallaði konan mín hann öllum illum nöfnum, svo sem skíthaus, hálfvita, sauðnaut og valdhrokagikk. Hann kláraði að skrifa seinni miðann og bætti honum undir rúðuþurrkuna. Svo tók hann til við að skrifa þriðja sektarmiðann, því bíllinn var óskoðaður. Svo leið næsta korterið. Við úthúðuðum lögreglumanninum og hann nánast fjölritaði sektarmiðana og stakk þeim þegjandi og hljóðalaust undir rúðuþurrkuna, en djöfull var hann orðinn rauður og þrútinn í framan.

Okkur var svo sem slétt sama. Við erum löngu hætt að keyra bíl, komum með strætó í bæinn, en við grípum hvert tækifæri sem gefst til að skemmta okkur svolítið. Það er svo mikilvægt fyrir fólk á okkar aldri"

Segið svo að gamla fólkið hafi ekkert skemmtilegt að gera í kreppunni! Grin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband