Færsluflokkur: Bloggar
20.11.2008 | 22:37
Þegar öllu er á botnin hvolft...
...þá er þetta allt voðalega einfalt. Rétt eins og hvert annað heimili sem þarf að halda útgjöldum sínum innan ramma þeirra tekna sem er aflað, þá á það nákvæmlega sama við um hið stóra heimili sem Ísland er.
Maður getur verið þakklátur fyrir það sem við þó eigum; Sjávarútveginn, áliðnaðinn og aðrar framleiðslugreinar sem skila tekjum í hús... og þökk sé öllum æðri máttarvöldum að ákveðinni elítu hefur ekki tekist það ætlunarverk sitt að ganga af íslenskum landbúnaði dauðum ennþá með því að flytja inn ódýr matvæli að utan! Hvar værum við stödd í dag ef það væri raunin?
Ef maður tekur sér stöðu aðeins fyrir utan írafárið sem er í gangi í þjóðfélaginu í dag og horfir með köldum kolli á það sem hefur, er og getur gerst, þá er þetta allt voðalega einfalt og skiljanlegt.
Við þurfum að afla tekna fyrir þjóðarbúið. Þeim tekjum þurfum við að verja til innflutnings nauðsynja, uppbyggingu velferðar og innviða þjóðfélagsins. Þetta er bara debet og kredit. Ef við eyðum meira en við öflum, þá þurfum við að taka lán fyrir því. Hvar? Jú, erlendis og það þarf að greiða þau lán... með þeim tekjum sem við öflum.
Er ekki bara komin tími til að við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að taka þeim skelli sem er framundan... við verðum að losna undan því helsi sem þessi Jöklabréf eru, leyfa þeim að fara sem munu fara. Krónan mun falla! Jafnvel skítfalla! Verðbólga mun rjúka upp og ef ekkert verður að gert þá munu fyrirtæki og heimili standa í rjúkandi rúst á eftir. Sumir hagfræðingar hafa bent á leiðir til að koma í veg fyrir það með því að hugsa út fyrir hin hefðbundna ramma. Því að ef stórkostlegt greiðslufall verður, þá mun allt bókstaflega fara til helvítis. Þess vegna verða ráðamenn að hugsa út fyrir hin hefðbundnu viðmið.
Þegar þessi flótti fjármagns spákaupmanna verður afstaðin, þá stöndum við væntanlega á brókinni með tæmda sjóði, fossblæðandi krónu og skuldug upp fyrir haus. En þá hefst líka endurreisnin. Við munum fá okkar gjaldeyristekjur, við munum vonandi fá fyrirgreiðslu fyrir frekari uppbyggingu hér á landi (sættum okkur við það að við verðum að nýta okkar auðlindir ef við ætlum yfirhöfuð að búa hér á landi). Það eina sem getur réttlætt tímabundin viðskiptahalla við útlönd er ef á sér stað uppbygging á starfsemi sem mun afla tekna... sem borga til baka þennan halla á skömmum tíma.
Við verðum einfaldlega að sætta okkur við það að lífskjör okkar byggjast upp á þeim tekjum sem við öflum, en ekki þeim lánum sem við getum slegið. Gengi krónunar kemur til með að jafnast og að lokum mun hún verða þess virði sem hún er... í jafnvægi við framboð og eftirspurn. Ef þorsti okkar eftir erlendum varningi verður mikill, þá mun hún falla, ef við hugsum eins og hagsýnar húsmæður, þá mun hún styrkjast og standa undir þeim styrk.
Ég er orðinn þreyttur á því karpi sem á sér stað í þjóðfélaginu, þar sem hver á fætur öðrum ber af sér sök og bendir eitthvert annað. Ég er orðinn þreyttur á orðagjálfri og lýðskrumi sem sumir pólitíkusar hafa stundað að undanförnu, þvaðri sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Það kom berlega í ljós í fréttum RÚV í kvöld að það verður engan afslátt hægt að fá frá fiskveiðistefnu ESB. Innganga mun taka allt að fjórum árum og Evran er ennþá fjarlægari sakir þeirrar stöðu sem fjármál Íslands eru í.
Það er óábyrgt að slá þessu ryki í augun á fólki. ESB er engin töfralausn, þvert á móti þá er ég sannfærður um að okkur sé mikið betur borgið að standa utan þess núna sem fyrr og líka í nánustu framtíð. Við höfum enga samningsstöðu gagnvart ESB, og þar að auki held ég að við höfum ekki þann samningaþrótt sem þarf til í viðræður við þursinn í Brüssel.
Verum stolt af því að vera íslendingar, og sýnum það í verki. Fjallkonan á það inni hjá okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2008 | 19:33
Mátulegt á þann fávitann...
Hafið þið ekki velt fyrir ykkur hvaða vesalingur hefur keypt sér hráolíu á $147,27?? Ætli hann sé ekki að fá þær tunnurnar afhentar núna... góður bissniss þetta.
Hard-Core Kapitalismi hikar ekki við að borða börnin sín þegar hungrið sverfur að.
![]() |
Enn lækkar verð á hráolíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2008 | 23:31
Skipalestir undir vopnavernd
Það er alveg með eindæmum að sjórán skuli tíðkast og að þetta stjórnlausa ríki sem Sómalía er skuli fá að komast upp með þessa vitleysu. Það er greinilegt að þeir vinna einhver skítverk fyrir einhvern, því annars væri búið að sprengja þetta lið aftur í fornöld.
Óneitanlega kemur manni í hug siglingar Bandamanna í skipalestum til að verjast árásum þýskra kafbáta. Eru þessir sómalar á nokkru merkilegri fleytum en öppgreituðum Sóma-bátum með vélbyssu í stað DNG rúllu?
![]() |
Olíuflotinn sneiði hjá sjóræningjaslóðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.11.2008 | 00:09
Framfylkingin? Samsókn?
Samkvæmt frétt á visir.is þá sagði Bjarni Harðarson víst að Framsóknarflokkurinn gæti allt eins sameinast Samfylkingunni. Ég held að það þurfi ekki að gerast með neinum skipulegum hætti því framsóknarmenn í miðjuþófi hafa gerst Samfylkingarfólk og ESB andstæðingar þar á bæ hafa fært sig alveg út á vinstri kantinn undir afdráttalausa afstöðu Steingríms & Co í þeim efnum.
Skoðanakannanir benda til þess að þeim gæti reynst erfitt að fá fulla mætingu á flokksþing.
Trúir fólk því virkilega að hér muni drjúpa smjör af hverju strái ef við göngum í ESB?? Að Evra verði gjaldmiðill okkar bara eftir nokkur ár?
En þegar það kemur svona almennt að spurningunni um ESB, þá spyr maður sig óneitanlega að því hvort að sá félagsskapur sem hefur snúið svona upp á handlegginn á okkur síðustu vikurnar til að hafa af okkur "nestspeninginn" sé svo æskilegur til að vera í? Horfum aðeins lengra fram á veginn, því ESB horfir ágirndaraugum á fiskimiðin okkar og nú hefur sú staða komið upp að raunhæfur möguleiki er á því að vinnanlegt magn olíu sé innan landhelginar. Þetta langar Brüssel að læsa klónum í, og ég held að þjóðarsálin sé svo þjökuð af minnimáttarkennd að afglöp í samningum sé stórhættulegur möguleiki.
Hver ætlaði ekki að kyssa vönd kvalarans?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 22:19
Eldri borgarar kunna að skemmta sér í kreppunni...
Eins og svo margir aðrir þá hefur maður oft velt því fyrir sér hvað eldri borgarar gera sér til dundurs svona á þessum síðustu og verstu.
Rakst á þessa skemmtilegu sögu fyrr í dag og varð bara að fá að deila henni.
"Um daginn fórum við hjónin til dæmis niður í bæ og versluðum lítið eitt. Við vorum ekki nema um fimm mínútur inni í búðinni. Svo þegar við komum út, var lögregluþjónn að skrifa sektarmiða.
Við gengum rakleitt til hans og ég spurði hvort hann væri ekki til í að gefa eldri borgurum landsins smá séns. Hann lét sem hann sæi okkur ekki og hélt áfram að skrifa sektarmiðann, rétt eins og við værum ekki til.
Ég kallaði hann Nasistalöggu, möppudýr, fant og fúlmenni. Hann rétt leit til mín, greinilega öskureiður og skrifaði svo annan sektarmiða, því bíllinn var á of slitnum dekkjum.
Þá kallaði konan mín hann öllum illum nöfnum, svo sem skíthaus, hálfvita, sauðnaut og valdhrokagikk. Hann kláraði að skrifa seinni miðann og bætti honum undir rúðuþurrkuna. Svo tók hann til við að skrifa þriðja sektarmiðann, því bíllinn var óskoðaður. Svo leið næsta korterið. Við úthúðuðum lögreglumanninum og hann nánast fjölritaði sektarmiðana og stakk þeim þegjandi og hljóðalaust undir rúðuþurrkuna, en djöfull var hann orðinn rauður og þrútinn í framan.
Okkur var svo sem slétt sama. Við erum löngu hætt að keyra bíl, komum með strætó í bæinn, en við grípum hvert tækifæri sem gefst til að skemmta okkur svolítið. Það er svo mikilvægt fyrir fólk á okkar aldri"
Segið svo að gamla fólkið hafi ekkert skemmtilegt að gera í kreppunni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 14:02
Leggjum inn í IGAVE bankann!
Það er innlánskrísa í öllum bönkum í Bretlandi. Væri hægt að endurgreiða Icesave bullið með framlögum frá Íslandi í IGAVE bankann.
Þá má segja að við íslendingar færum að ru**a okkur fyrir skuldunum.
![]() |
Sæðisgjafa skortir í Bretlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 08:29
Var þetta dótturfélag eða útibú?
Veit einhver hvort Kaupþing hafi verið með þetta í dótturfélagi eða rekið þetta sem sjálfstætt útibú? Ef þetta hefur verið útibú, var það þá útibú héðan eða frá öðrum banka þeirra erlendis.
Það er nefnilega reiginmunur þar á !!
Ekki laust við að þessi frétt hafi betur verið ósögð þar til það hafi legið ljóst fyrir.
![]() |
Vaxandi reiði í garð Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.11.2008 | 23:02
Hvað vakir fyrir þeim?
Þegar maður talar við gamla sjómenn, þá bera þeir yfirleitt tjallanum ekki góða söguna vegna ránveiða þeirra í útvíkkaðri landhelgi okkar hér á árum áður. En þeir segja heldur ekki farir sínar sléttar af viðskiptum sínum við normenn... sumir hreinlega sjá rautt þegar þá ber á góma.
Er tjallinn og norsarinn kannski farinn að plotta um hvernig þeir fyrrnefndu geta fengið hlut í framtíða olíutekjum íslendinga af Drekasvæðinu með aðstoð normanna?
Er maður farinn að vera paranoid eða hvað!!
![]() |
Stoltenberg ræddi um Ísland við Brown |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.11.2008 | 22:15
Hugrenningar venjulegs brauðstritara
Það hafa flogið misfleyg orð úr munni misgáfulegs fólks núna síðustu vikurnar um orsakir þeirrar stöðu sem við íslendingar erum í. Svona til að stikla á stóru, þá hefur maður heyrt því fleygt...
- ...að útrásavíkingar hafi teflt of djarft og því farið sem fór.
- ...að lánsfjárkreppa hafi skollið á og innstreymi fjármagns hafi hætt (lánalínur lokast).
- ...að íbúðalánasjóður hafi sprengt fasteignamarkaðinn með 90% lánum.
- ...að íslensk heimili hafi keypt of mikið af flatskjáum, fartölvum, innlit-útlitíbúðum og öðrum neysluvarningi sem fjármagnað var með erlendum lánum.
- ...að bankamenn á þrítugs og fertugsaldri hafi keypt of mikið af enskum og þýskum jeppum. Ný-ríkir íbúðabyggjendur og seljendur með erlent vinnuafl létu sér nægja ameríska pallbíla.
- ...að ráðamenn og eftirlitsstofnanir hafi ekki skapað nógu aðsniðinn ramma utanum nýfrjálshyggjuna og hafi svo síðan sofið á verðinum.
- ...að vondir ráðamenn erlendis séu að kúga út úr okkur allt fé sem við gætum komist yfir næstu áratugi.
Það eru eflaust mikið fleiri fleygar setningar sem hafa verið sagðar síðastliðnar vikur. En nú langar mig að koma að hugrenningum mínum (óvísindalegum, ófaglegum og bara byggðar á hreinni tilfinningu), hugrenningum venjulegs brauðstritara.
1...að útrásavíkingar hafi teflt of djarft og því farið sem fór.
Fyrsta teiknið sem ég sá að eitthvað verulegt var í aðsigi var þegar gamli skólabróðir minn, hann Bjarni Ármannsson seldi allt sitt hérna heima (um svipað leiti og REI málið skeit á sig) og flúði með allt sitt til skatta-helvítisins Noregs! Það hefði átt að hringja fleiri bjöllum en raun bar vitni. Ég hafði bara í flimtingum að nú væri skellurinn nærri. Hefði átt að taka mark á tilfinningunni.
2 ...að lánsfjárkreppa hafi skollið á og innstreymi fjármagns hafi hætt (lánalínur lokast).
Fasteignakreppa í bandaríkjunum... lánsfjárkreppa... allt ný hugtök fyrir manni. Íslenskir bankar hafa venjulega sent þau skilaboð til fólks að þegar þú hefur ekki lánstraust, þá ertu gjaldþrota. Þá býður maður ekki John Smith og Aard van der Vook upp á safaríka hávaxta innlánsreikninga, baktryggða af íslenskum skattborgurum. Ef ég myndi falsa undirskrift ábyrgðamanns á skuldabréf, þá færi ég í steininn og það ekki einu sinni á Kvíabryggju.
3 ...að íbúðalánasjóður hafi sprengt fasteignamarkaðinn með 90% lánum.
Þvíumlíkt kjaftæði! Hvernig geta 90% lán til þeirra sem eru að kaupa sér eign upp á 15,6 miljónir (hámarkslán var 14 miljónir) sprengt upp fasteignamarkaðinn. Það voru bankarnir sem riðu á vaðið með ódýr húsnæðislán með nánast engum efri mörkum. Það sprengdi upp fasteignamarkaðinn og gott betur en það. Hver einasti maður sem átti hamar, eða gat fengið hann fjármagnaðan, rauk til og réði nokkra austur-evrópu búa á skítalaunum og fór að byggja hús og selja. Sveitafélög fóru að bjóða upp lóðir og átti sinn þátt í því að sprengja þennan markað upp úr öllu valdi, sbr þegar lóðir seldust á þriðja tug miljóna og þá var ekki einu sinni búið að skíta út stunguskóflu þegar fólk var komið með þennan byggingakostnað. Þetta sprengi fasteignamarkaðinn. Ekki íbúðalánasjóður sem var að hjálpa ungu fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég þakka bara fyrir það að bönkunum tókst ekki það ætlunarverk sitt að sölsa honum undir sig líka. Þá væri illa fyrir okkur komið í dag.
4 ...að íslensk heimili hafi keypt of mikið af flatskjáum, fartölvum, innlit-útlitíbúðum og öðrum neysluvarningi sem fjármagnað var með erlendum lánum.
Jú, jú. Við fórum á endurnýjunarfyllerí. Hvað mig sjálfan varðar þá hef ég á síðastliðnum fimm árum endurnýjað eftirfarandi af lausafé mínu: Sjónvarpið. Það gamla var ekki lengur nema tveggja lita: gult og fjólublátt. Keypti 42 LG flatskjá sem dugar vonandi næstu 10 til 15 árin. Tölvan. Sú sem ég sit við hérna og skrifa niður þessi orð á. Er að verða tveggja ára og læt hana duga eins lengi og ég kemst upp með það. Húsið. Keypti sökkla að parhúsi og byggði hús yfir fjölskylduna... sjálfur! Datt ekki alveg í innlit-útlit pakkann, en vandaði vel til verka og sparaði þar sem við átti en ekki þar sem það hefði bara komið í bakið á manni. Það þarf að fylgja reglugerðum og lágmarksstöðlum.
5 ...að bankamenn á þrítugs og fertugsaldri hafi keypt of mikið af enskum og þýskum jeppum. Ný-ríkir íbúðabyggjendur og seljendur með erlent vinnuafl létu sér nægja ameríska pallbíla.
Flotinn af Range-Roverum, BMW X5 og Porsche Cayenne á vegum landsins segir allt sem segja þarf. Svo er ekki þverfótandi á bílastæðum verslunarmiðstöðva fyrir amerískum pallbílum sem taka tvö til þrjú stæði... Þetta eru VÖRUBÍLAR!! Andskotinn hafiða! Núna er ég ánægður með að bílafloti minn er ekki meiri fjárfesting en vikulaun bankastjóra.
6 ...að ráðamenn og eftirlitsstofnanir hafi ekki skapað nógu aðsniðinn ramma utanum nýfrjálshyggjuna og hafi svo síðan sofið á verðinum.
Þetta liggur í augum uppi. Þarna hafa stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og aðrir gjörsamlega drullað upp á bak. Gallinn kannski lá í meingölluðu regluverki sem við urðum að taka upp óbreytt vegna EES? Sjálfur Frakklandsforseti hefur sagt að skrifa þurfi leikreglurnar upp á nýtt. Það hlýtur að liggja í augum uppi. Lausnin felst samt ekki í frönsku lausninni (hálshöggva alla) heldur verðum við öll að leggjast á eitt og róa í takt... bara ef við vissum í hvaða takt og í hvaða átt...
7 ...að vondir ráðamenn erlendis séu að kúga út úr okkur allt fé sem við gætum komist yfir næstu áratugi.
Ég skal fyrr hundur heita en að viðurkenna það að ég, börnin mín og ófædd barnabörn hafi skrifað upp á ábyrgð fyrir einhvern banka í Reykjavík sem fékk lánaðan pening hjá fólki í útlöndum. Þeir hafa einfaldlega ekki leyfi frá mér til þess að skuldsetja mig, börnin mín og ófædd barnabörn á þennan hátt.
En við erum í þeirri stöðu sem við erum, þótt við vitum ekki hver hún er í raun og veru. Við verðum að fara að fá að vita eitthvað. Það er betra að okkur sé sagt að allt sé gjörsamlega farið til helvítis og að við eigum bara svarta daga framundan en að okkur sé sagt akkúrat ekki neitt. Mig, eins og flesta aðra íslendinga, er farið að þyrsta eftir einhverjum upplýsingum um hvernig málin standa. Hvað á að gera og hvað maður getur sjálfur gert til að verja sig og sína fyrir því sem koma skal. Ég held að óvissan sé versti óvinur okkar eins og stendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2008 | 14:35
Hergagnaútflutningur?
Það fór þó aldrei þannig að við íslendingar gætum ekki staðið undir hryðjuverkamannorðsporinu. Það þarf væntanlega að endurnýja bílaflotann í Írak eftir allar "bílasprengjurnar" þar í landi.
Við þurfum þessar druslur sjálf, þar sem það mun varla seljast nýr bíll hér á landi næstu árin...
![]() |
Druslurnar sendar úr landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)